Um hugræna atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð var í upphafi þróuð af Dr. Aaron T. Beck  og byggir á kenningum og hagnýtum rannsóknum í klínískri sálfræði . Tilfinningar og hegðun ákvarðast að miklu leiti á þeim hugmyndum sem einstaklingurinn hefur um umheiminn (Beck, 2011).


Hugræna kenningin byggir á þeirri grundvallarhugmynd að allt það sem við trúum um okkur sjálf sé lært og byggt á reynslu okkar.
Hugmyndir þínar um þitt eigið ágæti séu ályktanir sem þú hefur dregið af því sem þú hefur upplifað  (Fennel, 2009). Þar af leiðir að hægt er að læra nýja hegðun út frá nýjum skilningi og reynslu, hegðun sem nýtist þér betur.
 
 
Oft má rekja brotna sjálfsmynd til erfiðleika í æsku, t.d. til tilfinningalegrar vanrækslu foreldra,  hörkulegs uppeldis eða misnotkunar. Þarna getur orðið til upplifun sem þú túlkar á ákveðinn hátt, upplifun sem þróast jafnvel út í kjarnaviðhorf,  tilfinningu og trú sem þér finnst síðar að sé rótgróinn sannleikur jafnvel þó upplifun þín af sömu aðstæðum yrði allt önnur í dag miðað við breyttar aðstæður og aukinn þroska.  Orsökin fyrir vanlíðan í dag getur líka hafi komið til síðar. Hver sem orsökin er, þá hefur þú upplifað þessa reynslu sem sannleika út frá aðstæðum á þeim tíma, hvort sem það var á rökum reist eða ekki.  Í hugrænni atferlismeðferð er skjólstæðingnum hjálpað við að skoða á kerfisbundinn hátt hvernig hugsanir, hegðun og líðan tengjast og bent er á leiðir til að breyta hugsunum eða hegðun til að hafa áhrif á líðan sína.

Hugræna atferlismeðferðin
er sveigjanleg aðferð sem þarf að sérsníða að þörfum hvers og eins til að ná sem bestum árangri.
Í meðferðarvinnunni getur áherslan verið á að byggja upp gagnrýnandi hugsun á líðan og framkomu til að finna hvaða leiðir væru vænlegar til árangurs til að draga úr t.d. félagsfælni og eða til að efla tengslamyndun.  Áður en farið væri í að greina einkenni félagsfælninnar, forðun og öryggishegðun, þá þyrfti að byggja upp traustari grunn, efla sjálfsvitund og styrk skjólstæðingsins.
 
 
Hugrænt atferlislíkan þar sem við greinum og lýsum því sem þú ert að kljást við getur frætt þig um uppruna þeirra neikvæðu ósjálfráðu hugsana sem eru að trufla þig,  tengsl þeirra við fortíðarvanda og áhrif þeirra á bæði líkamlega og tilfinningalega líðan þína sem og á hegðun, tjáningu og aðra framkomu. Atferlislíkanið er líka hægt að nýta til að setja fram skýr dæmi um ýmislegt sem þú átt til með að gera til að forða þér úr aðstæðum sem þér þykja á einhvern hætt óþægilegar. Það getur verið eitthvað sem þú ert smeyk/ur um að geti reynst þér ógnvænlegt - án þess að þú hafir nokkur einustu rök fyrir því að svo verði. Þetta er oft kallað forðun og öryggishegðun og getur jafnvel aukið á fyrirliggjandi vanda fremur en að draga úr honum.
 
 
Hugræna atferlismeðferðin er virk aðferð þar sem skjólstæðingurinn þarf að taka virkan þátt.
Meðferðin á að taka afmarkaðan tíma og gera þig færa/n um að vinna sjálfa/n að áframhaldandi bata þrátt fyrir mögulegt bakslag.
 
Getur Hugræn atferlismeðferð nýst barninu þínu?
Hjá Námstækni ehf. er mikið unnið með Hugræna atferlismeðferð - bæði fyrir fullorðna - og nú líka fyrir börn. 
Jóna Björg nefnir barna-einka-námskeiðið "Snillinginn". Hér er umsögn móður sem kom með drenginn sinn á "Snillinganámskeið" nýverið. 
Móðirin segir: "Ég fór með strákinn minn á Snillinganámskeiðið hjá Námstækni. En ég er einstæð móðir og það getur stundum verið erfitt að halda öllu í skorðum. Hann var farinn að stjórna ansi miklu á heimilinu, var orðinn frekur og á köflum dónalegur. 

Hann hefur mikinn áhuga á fótbolta og náði Jóna Björg að tengjast honum þannig og tengja til dæmis reglur fótboltans við hegðun „utan vallarins“. Þetta virkaði mjög vel á hann og er hann í dag kurteis við alla, hjálpsamur á heimilinu og hlýðinn við hana mömmu sína 
Ég tel að þetta námskeið geti hjálpað krökkum með hvaða „vanda“ sem er."

 
Sjá nánar hér um einkatíma í Hugrænni atferlismeðferð